09 apríl, 2008

Veikindi

Ég er búinn að eyða síðustu 10 dögum veikur heima og það er búin að vera vægast sagt ömurleg upplifun. Er varla búinn að fara út úr húsi allan þennan tíma og um síðustu helgi var ég svo stíflaður að ég hef varla upplifað annað eins. Þegar ég fór á fætur á föstudagsmorgun þá var það fyrsta sem ég gerði að fá mér glas af eplasafa, hélt hann væri skemmdur en þá var ég bara svo stíflaður að bragð og þefskyn mitt var farið. Og það versnaði eftir því sem leið á daginn. Hrærði mér skyr í hádeginu, fattaði ekkert hvað ég ætti að setja mikinn sykur í það því ég fann ekki bragðið af því hvort sem er. Um kvöldið sagði mamma mér svo að ég ætti að fá mér viskí, það væri nú svei mér gott til að hreinsa hálsinn. En og aftur þegar ég opnaði flöskuna og lyktaði þá fann ég ekki lykt, heldur ekkert bragð þegar ég skellti því í mig, aðeins þessa óþægilegu tilfinningu sem maður fær þegar maður kyngir stórum sopa af sterku áfengi.
Ég er hinsvegar allur að koma til núna, bragðskynið snúið til baka fyrir nokkru. Það verður líka gott að geta komist út í góða veðrið sem hefur verið undanfarið, ef frá er talin þessi snjókoma sem kom í gærkvöldi. Ef lukkan bregst mér ekki þá verður hún viðvarandi næstu daga þegar maður kemst loksins úr húsi.

10 mars, 2008

Google

Ég hef mikið velt því fyrir mér undanfarin misseri hver tilgangurinn er með RSS feedi sem virðist komið á flestar síður sem uppfæra efni sitt reglulega, þá sérstaklega hvaða gagn það gerði fyrir mann. Ég komst svo að því um daginn þegar Jói sýndi mér síðu sem heitr Google Reader, þar skráir maður sig inn með því að nota g-mailið sitt, sem er btw lang lang besta frípóstþjóusta sem til er og ef þú ert ekki með einn slíkan fáðu þér þannig, og svo byrjar maður bara að setja inn síður sem maður fylgist með. Ég er t.d. með allar blog síðurnar sem eru á listanum á minni blogsíðu ásamt nokkrum fleirum. Því þarf ég ekki að eyða tíma í flakk um ótal síður til að tékka á þeim heldur sé ég þær allar á einum stað um leið og þær detta inn. Svo getur maður búið til vinalista og sent þeim síður sem manni finnast áhugaverðar með því að ýta á "share" takkann, þessi kassi hérna vinstra meginn er einmitt hluti af þessu.
Áður en ég hætti þá vil ég setja hér inn mynd af kettinum þeirra Ævars og Maríu, skrapp í heimsókn í helgina og náði þessari líka ljómandi mynd af honum.

03 mars, 2008

Dark floors

Gærkvöldið endaði svoldið öðruvísi en ég ætlaði, var að spjalla við Ævar um 10 leytið og hann spyr mig hvort ég kæmi ekki með í bíó, það átti víst að sjá Dark floors, myndina sem Lordi tók þátt í. Ég sló til og fórum við Ævar ásamt Guðna bróður hans og Sirrý í bíó. Hvað get ég sagt um þessa mynd?! Tja... eiginlega bara það að þið ættuð ekkert að vera að eyða pening í þetta, þessi mynd var svo kjánaleg að það hálfa væri nóg. Ég er algjört músarhjarta þegar kemur að hryllingsmyndum og forðast þær eins og heitan eldinn til þess að ég geti sofið almennilega á nóttunni en það er ljóst að þessi mynd mun afskaplega lítið halda fyrir mér vöku, nema þá helst vegna þess hversu mikið ég sé eftir 650 kallinnum sem fór í miðann. Lordi skrímslin eru ekki bestu skrímslin til að setja í hryllingsmynd, allavega ekki fyrir þá sem fylgjast með Eurovision, segi bara eins og Sirrý sagði á sinni síðu, maður bjóst hálft í hvoru við því að þeir myndu bresta í söng. Auk þess þá voru samtölin í þessari mynd hálfkjánaleg líka, virkuðu rosalega stíf og illa leikin, svona svipað og í slæmri íslenskri bíómynd (Blossi einhver?)

11 febrúar, 2008

It's alive

Þá er maður snúinn aftur í blogheima eftir langa fjarveru og ýmislegt hefur gerst frá því síðast, hversu frásagnarvert það hinsvegar er er hinsvegar önnur saga. Allavega, jólin komu og fóru ásamt áramótunum allt of hratt. Ég keypti mér nýja myndavél um miðjan janúar, Canon Eos 400d, ég elska hana, þarf hins vegar að læra betur á hana en það er önnur saga. Árangurinn af þessum fyrstu vikum má sjá á flickr síðunni minni og þetta lítur alveg ágætlega út.

Ég var að átta mig á því um daginn að í sumar verða komin 5 ár frá því ég útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri og hef ég mikið velt því fyrir mér hvert þessi 5 ár hafa farið, svo hratt hefur tíminn liðið. Finnst eins og það hafi verið í gær þegar maður kom fyrst inn á vistina sem nýnemi í MA, en síðan eru víst liðin 9 ár!!! Það er eiginlega stórfurðulegt hversu hratt tíminn líður hjá manni, man þegar ég var krakki þá fannst manni skólinn aldrei ætla að vera búinn og jóla/sumarfríið var alltaf of langt í burtu. Nú hins vegar flýgur tíminn hjá eins og hendi sé veifað.
Að öðru svona áður en maður verður þunglyndur af þessu tímatali, mér hefndist fyrir það að hlægja að þeim sem þurfti að moka gangstéttina hjá blokkinni í janúar þar sem við erum víst með sameigninna þennan mánuðinn og það hefur snjóað ótæpilega hér á suðvesturhorninu undanfarið. Skellti mér í það í gær að moka stéttina, þetta eru svona 20 metrar, og tók aldeilis skakkan pól í hæðina. Tiltölulega nýkominn úr rúminu leit ég út um gluggan og áætlaði svo að það væri nokkurra stiga frost úti og skellti mér í dúnúlpu, utanyfirbuxur, trefil, húfu og vettlinga. Kom svo niður til að moka en þar sem það var víst 5 gráður í plús þá hitnaði mér all verulega við verkið, hef ekki svitnað svona rosalega í lengri tíma, hélt líka áfram að svitna löngu eftir að ég hætti að moka.
hættur í bili.

20 nóvember, 2007

London baby...


Jæja, nú held ég að það sé kominn tími til að láta frá sér nokkur orð á þessari síðu, það sem ber tvímælalaust hæst frá því ég tjáði mig hér síðast er ferð mín til London um þar síðustu helgi. Þar fór ég ásamt mömmu og Sigurgeir bróður að heimsækja Dean frænda og konuna hans áður en þau flytja til USA. Þar var ýmislegt brallað, meðal annars farið upp í London Eye sem var alveg hreint mögnuð upplifun og svo var siglt á Thames ánni og fengum við flugeldasýningu í kaupbæti á meðan því stóð.
Eins og gerist oft þegar farið er til útlanda þá kaupir maður sér ýmsa hluti. Þegar ég var á flugvellinum skellti ég mér á flotta útgáfu af Die Hard with a Vengeance fyrir lítinn pening. Þegar ég ætlaði svo að fara að horfa á hana í gærkvöldi þá rak ég augun í það að nafnið á disknum var DIEHARD3_CENSORED. Þegar ég sá þetta vaknaði hjá mér illur grunur sem var staðfestur þegar ég hóf áhorf. Þarna hafði ég svo sannarlega keypt köttinn í sekknum því þetta var víst ritskoðuð útgáfa af Die Hard þar sem búið var að klippa út mikið af f-orðinu ógurlega, jafnvel dubbað yfir það, og búið að klippa út mesta blóðbaðið. Þetta er svona næstum eins og jól án hangikjöts, ég meina, hvað er Die Hard án þessara hluta.
Gott í bili
Farinn...

28 október, 2007

Rafmagnsleysi

Ég upplifði það sterkt í gærkvöldi hversu háður maður er orðinn rafmagni og öllum þeim tækjum sem fyrir því ganga. Ég var að horfa á mynd rétt upp úr kl. 11 í gærkvöldi þegar skyndilega allt varð svart. Fyrst hélt ég að það hefði slegið út, en þegar ég leit út um gluggann þá sá að að blokkin við hliðina var líka án rafmagns ásamt restinni af hverfinu.
Það var svoldið svekkjandi að horfa út um stofugluggann og sjá restina af höfuðborgarsvæðinu lýsa eins og aldrei fyrr. Þarna var ég, í svarta myrkri og það eina sem ég hafði til að lýsa mér var gsm síminn minn og hann notaði ég til að finna vasaljósið góða sem ég keypti í OZ og reyndist vera algjör livesaver í þessu tilfelli. Þegar þeirri leit var lokið settist ég niður og hugsaði út í það hvað maður ætti að gera af sér. Þá komst ég að þeirri leiðindaniðurstöðu að meirihluti þess sem ég vildi gera krafðist rafmagns.
Það fyndna er svo að þegar rafmagnið kom á aftur þá var ég eiginlega búinn að sætta mig við nótt í myrkri, minnti mann stundum á það þegar maður var lítill og það var rafmagnslaust í sveitinni, þá tókst manni yfirleitt að finna eitthvað sér til dundurs sem krafðist ekki rafmagns.

Segi þetta gott í bili.

23 október, 2007

Bara fyndið...

Ég veit að það er ljótt að hlæja að svona en þett myndband fékk mig svoleiðis til að springa úr hlátri. Síðasta atriðið var alveg sérstaklega fyndið.

17 október, 2007

Reaper

Eins og flestir vita þá koma ógrynni af nýjum sjónvarpsþáttum á dagskrá stöðvanna úti. Þetta haustið var ég ekkert að pæla mikið í því hvað væri að koma fyrr en í dag þegar ég kíkti á tv.com og fann þar þátt sem mér fannst hljóma það áhugaverður að ég ákvað að ná mér í hann. Það er þessi hérna:

Þessum þáttum er leikstýrt af Kevin Smith og leikararnir eru fínir. Reyndar bara búinn að sjá tvo þætti en þeir lofa góðu. Kíkið á hann.

02 október, 2007

Myndir

Þá kom loksins að því, ég tók mig til í vikunni og setti inn það sem upp á vantaði af myndunum mínum frá Ástralíu. Þetta voru tæplega 1300 myndir í upphafi en eftir að hafa hent út misheppnuðum myndum og þeim sem teknar voru svona sirka 12 sinnum þá standa eftir hátt í 500 myndir sem ég setti á netið, slóðin er www.picturetrail.com/gestur og myndinar eru neðst á síðunni. Hér eru nokkur sýnishorn:









Eins og ég sagði þá eru þetta bara sýnishorn, miklu meira inni á myndasíðunni.
Segi þetta gott í bili, vona að þið njótið myndanna.

P.s. Er aðeins að prófa þennan myndbandafídus sem var að koma inn á þessa síðu. Því eru hér nokkur myndbönd frá OZ.

Einhver flottasta strönd sem ég hef séð, og það var ekki sála á ferli þarna nema við.

Þetta var alveg ótrúlegt stuð, verst að sandurinn smaug inn um allt.

Þessi hákarl sem synti yfir mig þarna var frekar ógnvekjandi.

Upplifun ferðarinnar, sitja í kringum varðeld, grilla sykurpúða, hlusta á didgeridoo og sofna svo á jörðinni í kringum eldinn. Það sést ekki mikið en þið heyrið alveg hvað er í gangi.

Kings Canyon, rosalegur staður, mögnuð upplifun.

23 september, 2007

Heimkoma... + mánuður

Já, þá er maður kominn heim, meira að segja fyrir mörgum vikum síðan. Hef bara aldrei komið mér í það að koma einhverju hingað inn. Ég er ekki enþá búinn að sortera myndirnar úr ferðinni þar sem það voru teknar 1200+ myndir. Auk þess er Iphoto með eitthvað bögg þegar ég reyni að gera myndirnar nethæfar. Annars er maður bara að dunda við þetta venjulega, vinna og svo líka skólinn, er kominn ágætlega af stað í heimildaöflun fyrir blessaða ritgerðina, aftur. En já, veturinn greinilega að hefja innreið sína, búið að rigna mikið undanfarið og það fer allverulega í skapið á manni. Óþolandi að þurfa að skella sér út í úrhellið dag eftir dag.
Allavega, þegar mér leiddist í vinnunni um síðustu helgi þá ákvað ég að eyða tímanum í að kanna töfra internetsins. Eftir mikla könnun lá leið mín á slóðir youtube þar sem ég fann eftirfarandi myndband:

Fullt af myndböndum með þessu gaur á netinu, mæli með þessu, breskur húmor að gera góða hluti hér.

Segi þetta gott í bili...

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page