"...eins og laufblað í vindi..."
Jæja, þá er maður kominn til Reykjavíkur heilu og höldnu þó ég hafi á tímabili efast um að það tækist. Ég kvaddi sveitina í fyrrakvöld og hélt á krókinn með mömmu en ég hafði pantað flugfar þaðan sem fór svo í gærkvöldi. Gærdeginum var svo eytt í leti en svo var hoppað út á völl og upp í vél. Þær vélar sem fljúga frá króknum eru afskaplega litlar og fyrir mann eins og mig þá er afskaplega lítið nánast dvergvaxið þannig að komast um borð í vélina var fyrsta afrekið. Reyndar var næstum búið að klípp af mér hausinn, allavega hefði ég fengið slæmt höfuðhögg, þegar ég gekk næstum á stélvænginn á rellunni. Þegar mér tókst svo að troða mér inn í vélina í heilu lagi þá uppgötvaði ég að sætisnúmerið sem var á miðanum mínum var eitthvað skrítið, ég átti að sitja í sæti 6C en það voru bara til sæti 6A og 6B, sætið sem ég átti að sitja í var semsagt ekki til. En þar sem vélin var langt frá því að vera troðfull þá valdi ég mér þetta fína sæti og aldrei þessu vant þá hafði maður nóg fótapláss sem var ný upplifun fyrir mér. Svo kom að því að leggja skyldi í hann og gerði flugstjórinn tilraun til þes að loka hurðinni en hún var eitthvað til vandræða. Held að hann hafi verið svona 5 mínútur að reyna að loka henni, einhver stelpa sem sat fyrir framan hurðina spurði gaurinn í geðshræringu hvort að hún myndi nokkuð opnast á flugi en þá hálf hlóg hann að henni og sagði “nei nei, hún er alveg föst”, sjálfur var ég hálfsmeykur þar sem ég sat nánast við hliðina á hurðinni og fór fyrri helmingurinn af fluginu í það að hafa auga með henni, langaði ekkert til að fara í fallhlífarstökk án fallhlífar. Flugið gekk annars að mestu áfallalaust fyrir sig þar til líða tók að lendingu. Það var, tja hvað skal segja… óskemmtileg upplifun… orðtakið “eins og laufblað í vindi” öðlaðist alveg nýja merkingu fyrir mér. Það er alltaf gaman að fljúga yfir miðborg Reykjavíkur í roki og rigningu í flugvél sem flugstjórinn á í erfiðleikum með að halda í beinni stefnu… eða þannig.
Jæja, gott í bili,
Tschuss
Jæja, gott í bili,
Tschuss
<< Heim