27 maí, 2005

Ahhh, helgarfrí

Jæja, þá er maður kominn heim eftir viku númer 2 í þessari vinnu. Ég verð bara að segja það að maður hefur sjaldan komist í betri vinnu á ævinni, þó að þetta sé stundum heilmikið púl, langur vinnudagur og maður er stundum að lognast útaf klukkan 10 á kvöldin (venjulega ég næstum aldrei að sofa fyrir miðnætti) þá er þetta fjölbreytt starf og yfirmaður mjög fínn maður þannig að það er ekki undan því að kvarta. Allavega skárra heldur en beyglurnar sem stjórnuðu hótelinu á Laugum þegar ég vann þar, þær gátu ekki einu sinni ráðið nógu marga starfsmenn til þess sinna hótelinu og því voru allir í bullandi yfirvinnu. En hey, hver er að hugsa um það, það var fyrir löngu síðan. En annars var þessi vika svoldið frábrugðin þeirri síðustu að því leyti að nú var maður að drepast úr hita frekar en kulda eins og var í síðustu viku og maður er meira að segja farinn að fá smá lit í andlitið. Svoldið annað heldur en var í kísiliðjunni þar sem maður kom varla út úr húsi allt sumarið og var jafn fölur og berklasjúklingur á lokastigi þegar komið var fram á haustið, svo fölur var maður.

En að öðru, um síðustu helgi var Eurovision eins og flestir vita, maður er kannski svoldið seinn með allt tal um það en þar sem ég kemst ekki á netið á virkum dögum þá verð ég bara að láta það fjúka núna (betra seint en aldrei). Þar var Gísli Marteinn nokkur að lýsa, hundfúll yfir því að við værum ekki með. Þegar stigagjöfin var í gangi óskaði ég mér þess helst að ég væri kominn í herbergið sem hann var að lýsa úr svo ég gæti kyrkt manninn með míkrafónssnúrunni því hann var alveg ótrúlega pirrandi, meira pirrandi en í keppninni sjálfri. Þegar verið var að tilkynnastigin þá var hann alveg á fullu að tilkynna:

Einhver gaur í öðru landi: Israel 4 points

Gísli Marteinn: Ísrael 4 stig

Og að gera þetta í hvert einasta skipti sem stig var gefið var að gera mig vitlausan. En nóg um Eurovison og meira um Gísla Martein. Ég heyrði það í fréttum í vikunni að nokkrir væru farnir að bítast um forystu í Sjálfstæðisflokknum og var Gísli Marteinn þar á meðal. Nú skulum við ímynda okkur mjög ógnvekjandi möguleika, Gísli Marteinn myndi leiða lista sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningum á næsta ári, sjálfstæðisflokkurinn vinnur kosningarnar, Gísli Marteinn yrði borgarstjóri. Ég meina, hversu slæmt yrði það ef þetta gerðist? Það myndi bara styrkja mann í þeirri skoðun að vilja aldrei nokkurn tíma eiga lögheimili í Reykjavík. Eitt gott myndi þó af þessu leiða, Gísli Marteinn myndi ekki lýsa Eurovison á meðan og ekki vera að stjórna einhverjum leiðinlegum sjónvarpsþáttum. Þannig að það eru góðir fletir á flestum málum.

Jæja, held ég segi þetta gott í bili, orðin einhver langloka hjá manni í þetta skiptið. Held samt að það verði venja hjá manni í sumar að blogga bara um helgar, verður það ekki fínt, fá bara helgarblogg með skýrslu um vikuna. Jæja, við sjáum til hvernig það fer. Segi þetta gott í bili

Yfir og út

P.s. Ef það fór framhjá einhverjum sem las þessa færslu og þá síðustu þá þoli ég ekki Gísla Martein.

P.p.s. Ætla rétt að vona að þetta góða veður sem komið er núna endist eitthvað annars fer ég í mál við einhvern.

P.p.p.s. Af hverju er þessi helv… visir.is borði kominn hérna efst á síðuna. Ætla rétt að vona að helv… 365 hálfvitarnir séu ekki búnir að kaupa blog.central. Já, þetta eru hálfvitar, bera ábyrgð á því að DV kemur reglulega út með sína lygaþvælu og mannorðsmorð.

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page