09 júlí, 2006

Downunder

Ég sit hérna í vinnunni en einu sinni og reyni að gera eitthvað gagn. Þegar ég er að vinna svona á sunnudögum þá er ég yfirleitt einn á lagernum þannig að það má í raun kalla mig lagerstjóra á degi sem þessum. Hins vegar er ekki neitt að gera í dag því hvaða manneskja með fullu viti fer að hanga inn í raftækjabúð í góða veðrinu sem ákvað að sýna sig hérna í Reykjavík. En að öðru, það var ættarmót hjá mér um síðustu helgi og þar komu saman 130 manns úr móðurætt minni og þá komst ég að því hversu lítið ég þekkti þetta fólk í raun og veru. Þarna voru saman komnir afkomendur langaafa og langömmu, semsagt foreldra móðurafa míns, og flestir þeir sem ég þekkti þarna voru systkini mömmu eða börn þeirra. Farið var heim að ættaróðalinu og gengið og keyrt niður að sjó. Svo var borðaður rosalega góður matur um kvöldið en eftir ræðuhöld og myndatökur fór hópurinn að þynnast allrosalega enda var mikið um barnafólk í hópnum. Þeir hörðustu fóru svo að sofa hálf 8 - 8 um morguninn og fannst einn sofandi á leikfimisdýnu inn í geymslu. Eftir 7 tíma svefn hjá undirrituðum og ferð aftur í bæinn var svo rokið í það að ganga á Esjuna með Jóa, það gekk á með rigningu til að byrja með og við sáum tindinn birtast og hverfa á víxl í skýjunum. Það fór svo þegar við komum upp á topp að þar var svartaþoka, mígandi rigning og skítakuldi þannig að útsýni var ekkert, okkur varð kalt og við villtumst á leiðinni niður. Það var ekkert alvarlegt, fórum bara aðra leið en þessa venjulegu en hún var hinsvegar mun seinfarnari. Þegar heim var komið var göngufötunum hent beint í þvottavélina enda voru þau löðrandi af svita og buxurnar brúnar af drullu. Um kvöldið lognaðist ég svo fljótt útaf vegna þreytu.

Og að enn öðru, var að tala við Maríu um daginn og talið barst að Ástralíu en hún stefnir á að vera þar á næsta ári. Mig hefur mikið langað til að fara til þangað síðan ég var krakki og María skoraði á mig að fara að safna pening fyrir ferð þangað og tókst henni ætlunarverk sitt og er ég alvarlega að spá í að skella mér. Hugsa að sú ferð eigi sér stað í júlí og/eða ágúst á næsta ári ef af verður. Þetta er allt saman á teikniborðinu þessa stundina en ég vona svo sannarlega að af því verði. Það verður eflaust meira um þetta síðar.

Er að hugsa um að segja þetta gott í bili, set kannski inn einhverjar myndir af ættarmótinu ef ég er í stuði, þær komu nú ekkert sérlega vel út þannig að það verður eitthvað þunnur bunki.

Þangað til næst...

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page