21 febrúar, 2007

Svona fólk

Ég er búinn að sitja hér á bókasafninu í dag og reyna að koma einhverju í verk, það svona gengur upp og ofan. Er búinn að vera á barmi þess að leggjast í kvef og leiðindi núna í bráðum tvær vikur, alltaf með einhvern pirring í hálsinum og stíflað nef en það virðist vera erfiðara en ég veit ekki hvað að losna við þetta. Þurfti aðeins að skjótast niður í miðbæ áðan svona eins og gerist og gengur og þar sem ég geng eftir Austurstræti þá vindur sér að mér maður og fer að sníkja af mér peninga og ég segi eins og er að ég sé ekki með neitt á mér. Svo þegar ég á leið þarna framhjá aftur þá kemur þessi gaur aftur upp að mér, hafði meira að segja fyrir því hlaupa yfir götuna til að ná mér, og reynir aftur að sníkja af mér peninga og hann bætir því við að hann sé að reyna að safna sér fyrir vodkapela. Jahá, það breytir öllu hugsaði ég þegar hann sagði þetta, ég vil einmitt hafa þig enþá drukknari og leiðinlegri næst þegar ég mæti þér. Gaurinn fékk hins vegar sömu svör og í fyrra skiptið. Þetta er hinsvegar ekki í fyrsta skipti sem svona sníkjudýr leita á mann, ónei, langt í frá. Varð einu sinni fyrir svo hastarlegu aðkasti svona gaura að það lá við að ég þyrfti að slá þá frá mér.
Finnst það sorglegt hvað það er orðið mikið um svona betl á Íslandi, einhverjir gaurar að sníkja af manni pening fyrir næsta sjúss eða skammti. Og það er talað um aukin jöfnuð í samfélaginu, jahérna hér.
Í fréttum er það helst að ég skellti mér á þorrablót fyrir norðan um helgina. Það var mikið gaman mikið fjör og yfir 200 manns mættu á svæðið. Fékk smá áminningu um það hversu gamall maður væri orðinn þar sem aldurstakmarkið var 16 ár sem þýðir að krakkar fæddir 1991 máttu koma. Finnst svo stutt síðan maður fór sjálfur á fyrsta þorrablótið sitt en svona líður tíminn, maður er víst að verða 25 ára á næsta ári, arrrgh. Jæja, nóg um það. Flugferðin suður á mánudaginn var hins vegar aðeins öðruvísi en maður óskaði sér, lenti í allhressilegri ókyrrð þegar verið var að lækka flugið til Reykjavíkur og við skulum orða það þannig að ég hefði ekki haft beltið spennt þá hefði ég fengið að kynnast loftinu í flugvélinni aðeins betur en ég hefði óskað.
En held ég segi þetta gott í bili,
kveðja úr loftleysinu á bókhlöðunni...

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page