19 janúar, 2007

Á nýju ári :)

Ákvað að láta verða að því að hripa niður nokkur orð hérna svona á nýju ári, þó ekki væri nema til þess að fólk þurfi ekki að sjá þessa myndasýningu hérna að neðan í hvert skipti sem það kíkir á síðuna mína. En já, það var með sorg í hjarta sem undirritaður þurfti að kveðja norðurlandið að morgni 4. janúar til að halda í hina illræmdu borg óttans. Dvölin þar hefur verið ágæt það sem af er. Fyrsta vikan í bænum fór í vinnu þar sem verið var að undirbúa vörutalningu í Elko, bjó maður sig undir algjöran dauða og djöful þar, ekki síst vegna þess hversu margir hafa sagt við mann hversu ömurlegt fyrirbæri vörutalning væri. Verð þó að segja að þrátt fyrir að maður hefði þurft að vakna klukkan 8 síðastliðinn sunnudagsmorgun þá var þetta ekki eins slæmt og af var látið, held ég hafi samt ekki verið svona snemma á fótum á sunnudegi síðan ég vann í kísiliðjunni eða í næstum 3 ár. Allavega þá var það ágætt að fá að vera í búðinni án þess að vera með síspyrjandi kúnna ofan í sér. Get þó seint sagt að þetta hafi verið skemmtilegt en frásagnir þær sem ég hef heyrt af vörutalningum hafa greinilega verið stórlega ýktar.
Nú er það hins vegar planið hjá manni að massa eins og eitt stykki BA ritgerð saman sem á vera tilbúin í vor, umfjöllunarefnið er deilur Íslendinga og Breta þegar hinir fyrrnefndu ákváðu að færa fiskveiðilögsöguna úr þremur mílum í fjórar. Hljómar örugglega heillandi fyrir lesendur þessarar síðu en mér líst ágætlega á þetta. Hins vegar sér maður fram á annsi þétta áætlun í febrúar, þrjár af fjórum helgum strax bókaðar, fyrsta fer í Glasgow ferð, helgi númer tvö er árshátíð hjá Elko og öðrum tengdum fyrirtækjum og loks er það þorrablót fyrir norðan þá þriðju. Ákvað að skella mér þar sem ég hef ekki farið á eitt slíkt síðan ég lauk menntaskóla auk þess sem ég fékk flug norður á góðum díl.
Jæja, hættur þessu í bili,
farinn...

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page