12 febrúar, 2007

Útstáelsi.....


Þetta er búin að vera alveg heljarinnar helgi hjá manni núna og búið að sofa allt, allt of lítið. Telma dróg mig á Röskvudjamm á fimmtudaginn eftir að hafa dregið mig á kjörstað fyrr um daginn. Það var mikið gaman, mikið stuð og alltaf gaman að fá ódýran bjór svona til tilbreytingar, eitthvað annað en það var á laugardagskvöldið, kem nánar að því seinna. Allavega þá var ég í bænum til að verða 2 og fór þá heim. Mætti svo í vinnuna daginn eftir og leið ekkert alltof vel, grunar lagerstjóran um að hafa smitað mig af einhverjum fjanda, er búinn að vera hálfkvefaður síðan þarna á föstudaginn, samt ekki svo slæmt að ég hafi þurft að leggjast í rúmið. Skellti mér í bíó á föstudagskvöldið með Jóa, fór að sjá mynd sem heitir á ensku Pan's labyrinth. Þetta er reyndar spænsk mynd og er þetta í fyrsta skiptið í langan, langan, langan tíma sem ég hef farið í bíó á mynd sem er ekki á ensku. Allavega þá er þarna stórgóð mynd á ferð, mæli klárlega með henni. Þessi sýning var án hlés og er það ágætis tilbreyting að horfa á myndina í einum rykk þó það sé vissulega gott að teygja aðeins úr sér í miðri mynd. Var að drepast í bakinu þegar ég stóð upp. Það var þó eitt sem ég tók eftir sem munaði um, seinni hlutann af myndinni var ekkert skrjáf í nammi, popppokum eða neinu slíku þannig að maður gat horft á myndina nokkurnvegin truflanalaust.

Á laugardaginn var svo árshátíð hjá Elko og tengdum fyrirtækjum á Broadway. Þar var mikið gaman, mikið stuð þó ég verði að viðurkenna að þeir hefðu mátt vera svoldið örlátari á matinn. Svo var verðið á áfenginu þarna upp úr öllu valdi, ég meina, er 750 kall fyrir bjór sem er í glasi sem rúmar varla 33 cl dós. Og kokteill kostaði f**king 1500 kall. Okkur blöskraði svo þetta verð að við kíktum 5 gaurar úr Skeifunni á bar í næsta húsi, keyptum flösku af bláum Gajol og skelltum henni í okkur á nokkrum mínútum, fórum svo aftur yfir. Ég verð að segja að þetta er alveg svívirðileg álagning á þessum stað, kannski er það þess vegna sem að reksturinn hjá þessum gaukum gengur ekkert alltof vel, það skildist mér allavega á mömmu þegar ég talaði við hana í morgun.

Svo er það ætlunin að heiðra Norðurland með komu minni á föstudaginn, er að fara á þorrablót sem verður haldið heima í sveit á laugardaginn eins og ég hef áður minnst á. Kem svo aftur suður á mánudagskvöld. Langar einhvern með á þorrablót, þarf að láta vita í síðasta lagi á miðvikudaginn.

Segi þetta gott í bili, þarf að reyna að gera eitthvað í þessum lærdómi.

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page