03 júní, 2007

Hópþrýstingur

Alveg er það merkilegt að þegar maður hættir að blogga í nokkra mánuði þá sprettur allt í einu upp hópur fólks sem er eitthvað að tala um skort á bloggi. Ekki voru allir í þessum hópi svo duglegir að láta vita af komu sinni áður :P. þannig að það mætti segja að maður hafi verið beittur hópþrýstingi til að blogga...
En að öðru, núna á föstudaginn gengu í gildi lög sem gera það ólöglegt að reykja í opinberum rýmum, t.d. veitinga og skemmtistöðum sem gerir það að verkum að maður getur farið út að skemmta sér án þess að fá særindi í hálsinn, sviða í augun og anga eins og reykt hangilæri þegar maður kemur heim eða farið út að borða án þess að þurfa að láta eyðileggja fyrir sér máltíðina með einhverri reykjarstyppu. Ég segi því húrra fyrir því. Ótrúlegt að heyra í fólki sem er á móti þessu, fólk að segja að fyrst að búið sé að úthýsa tóbakinu þá sé það alveg jafn rökrétt að banna áfengi og kaffi svo dæmi sé tekið. Ekki eru menn að blása eiturgufum yfir annað fólk þegar þeir fá sér kaffisopann sinn eða fá sér í glas og því blæs maður á svona rugl. Minnir mann svoldið á fíkla í afneitun sem grípa í fáránlegustu rök til að réttlæta neyslu sína.
En að öðru, Ástralíuferðin er einungis 1 og hálfan mánuð í burtu og á þessi eini og hálfi mánuður vafalaust eftir að fljúga hjá. Ég fer út 17. júlí og eyði væntanlega rúmum sólarhring hjá Dean frænda í London áður en ég held svo áfram. Það er ekki laust við að maður sé farinn að finna fyrir fiðrildum í maganum af spenningi fyrir þessari ferð enda er maður búinn að dreyma um þetta frá því maður var sirka 10 ára.
Maður varð víst svo frægur um daginn að fá mynd eftir sig birta í Fréttablaðinu.
Var það myndin sem er hér fyrir neðan og birtist hún á forsíðu vinnuvélablaðs sem var inn í blaðinu miðju.

En núna þarf maður víst að fara að snúa sér aftur að blessaðri vinnunni þannig að ég segi þetta gott í bili.

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006


Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page