Sprungin dekk og geitungar
Sit hérna í vinnunni og læt mér leiðast og syrgi það að fríið mitt skuli vera búið. Verð samt að segja að ég afrekaði meira á seinustu tveimur dögum þessa frís heldur en ég gerði dagana fjóra á undan. Skellti mér á tónleika á Sölku á föstudaginn bara svona upp á djókið og kom það mér á óvart hversu skemmtilegir þeir voru, þar var Jón Ólafsson að spila og syngja og segja brandara inn á milli. Fór síðan að vinna í gærmorgun og skrapp heim í gærkvöldi af því að afi var í heimsókn og var hjá okkur í kvöldmat. Lenti í því á heimleiðinni að það sprakk á bílnum hjá mér við Útkinnarafleggjaran, ekki nóg með það að það hafi sprungið heldur stóðu vírarnir út úr dekkinu og maður sá í strigann, semsagt það dekk fer ekki í viðgerð, það er nokkuð ljóst. Þegar ég fór svo að brasa við það að skipta um dekk kom í ljós að lykillinn var óttalegt drasl, hann var svo lítill að það var ekki hægt að bifa boltunum. Síðan var tjakkurinn svo óstöðugur að bíllinn skreið alltaf út á hlið (helvítis rússneska drasl). Stefán kom og náði í mig, ég borðaði kvöldmat og síðan fórum við að skipta um dekkið. Og bardaginn við geitungana heldur áfram, ég bað Stebba um að kaupa fleiri gildrur og við hengdum eina þannig upp að hún var nánast inní runnanum þar sem geitungarnir eru, daginn eftir var gildran orðin full af geitungum, og það engum smáræðisdrjólum. Annars hef ég ekki meira að segja í bili, farinn.
<< Heim