24 júní, 2005

Grasasnar

Úff, hvað tíminn líður hratt núna, bara kominn 24. júní og daginn tekinn að stytta aftur. Sit hérna á föstudagskvöldi þreyttur eftir langan vinnudag, einir 10 tímar í dag. Er búinn að vera skröltandi á sláttutraktor núna undanfarna þrjá daga að slá gras. Og talandi um gras, þvílíkir grasasnar sem sumt fólk getur verið. Þetta segi ég af því að umsjónarmaðurinn þarna á Illugastöðum bað fólk sem kom síðasta föstudag vinsamlegast um að keyra ekki á grasinu þar sem það væru komin hjólför í þetta. Svo tók hann eftir einum bíl sem stóð úti á grasinu við eitt húsið og hann fór að tala við þann sem átti bílinn og hann sagðist hafa gert þetta af því að allir hinir gerðu það sem er bara lélegasta afsökun sem til er. Því var gripið til þess ráðs að planta trjám til að loka þeim leiðum sem fólk notaði til að keyra inn á grasið. Svo var það þannig að það var bannað að keyra að húsunum nema rétt þegar fólk kemur og fer. Þannig að leiðin að húsunum er lokað með keðju og hengilás og fólk verður að leggja við bílaplan sem er rétt hjá húsunum.

Einn greip til þess ráðs að keyra bara upp á og svona 1 og ½ meters háann kant sem var við bílastæðið og fór þannig framhjá hliðinu. Þetta átti einnig sinn þátt í því að þessum blessuðu trjám var plantað. En fólk er fífl eins og einhver sagði því einn daginn kom þarna gaur á stórum jeppa og keyrði bara upp á kantinn og yfir trén takk fyrir. Þegar hann var spurður hvers vegna hann gerði þetta þá sagðist hann hafa séð slóð þarna upp sem var eftir fyrrnefnda manneskju sem keyrði upp á kantinn, semsagt annar asni með aðra lélega afsökun. Svo er það þannig að þegar búið er að koma þessu inn í hausinn á fólki þá fer það og annar hópur kemur í staðinn þannig að kennslan byrjar upp á nýtt.

En að öðrum hlutum, ég var að fá í hendur nýjustu Coldplay plötuna og verð ég að segja að sú hljómsveit verður bara betri og betri sem á líður. Gömlu plöturnar þeirra náttúrulega alveg frábærar og þess alls ekki síðri. Enda er það kannski ekki furða að þessi hljómsveit er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og mæli ég hiklaus með þessari plötum fyrir þá sem hafa gaman að tónlist eins og Coldplay spilar. Jæja, segi þetta gott í bili, skrifa kannski eitthvað meira þessa helgina ef ég lendi í einhverju sem er þess vert að geta þess hér. Yfir og út.

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page