27 júlí, 2006

Norðurlandið er best-í fréttum er þetta helst :)

Tók mig til og skrapp norður í fjóra daga um síðustu helgi og það er fyrst núna sem ég hreinlega nenni að skrifa um þessa ferð. Þetta ferðalag byrjaði í raun á fimmtudaginn fyrir viku þegar ég gisti heima hjá Ölla og flugum við með fyrsta flugi norður morguninn eftir og vorum lentir á Akureyri upp úr klukkan 8 um morguninn. Stórum hluta af föstudeginum var eytt á Akureyri en loks lagði ég í hann með mömmu
heim á leið þegar farið var að nálgast kvöldmatartíma. Á laugardeginum var svo komið að aðalástæðu þessarar norðurferðar þegar ég hélt austur í Hafralæk til að hitta fyrrverandi skólasystkin mín. Þarna var fullt af fólki sem ég hef varla hitt síðan ég kláraði Hafralæk, t.d. Tóti, Guðfinna, Bjarki og Ástþór. Það var ótrúlegt hversu lítið hafði breyst í skólanum, það voru enþá þessar ljótu skreytingar á stiganum, lyktin var ekkert ósvipuð og leiktækin voru enþá í ósköp svipuðu ástandi. Samt fannst mér eins og það væri lægra til lofts í matsalnum og að skilrúmin á milli klósettanna væru lægri en þegar ég var þarna við nám. Man einmitt hversu mikið sport það var að kíkja yfir í fatahengið hjá stelpunum þegar maður var lítill, nú gekk maður framhjá og sá yfir án þess að þurfa að teygja sig.
Eftir ratleik og vídeogláp þá var haldið á Vestmannsvatn þar sem byrjað var að setja vatn í heitann pott. Sumir tóku sig til og sigldu út á vatn á meðan aðrir sötruðu ölið. Svo var farið að grilla og menn rifu í sig matinn. Þegar líða tók á kvöldið fór fólk svo að koma sér í pottinn en þegar áleið fór vatnið að verða svipað á litinn og Skjálfandafljót sökum þess hversu margir voru í pottinum og lítil sem engin endurnýjun var á vatninu í pottinum. Það var mjög gaman að hitta allt þetta lið aftur og það var spjallað, drukkið og... ööö... drukkið meira eða þar til alvarlegur bjórskortur fór að þjá suma, er undirritaður þeirra á meðal. Að lokum var Einar svo góður að skutla mér heim og var ég kominn heim í Kinnina og skriðinn í bólið um 5 leytið á sunnudagsmorgninum.
Sunnudagurinn leið tíðindalítið enda svaf ég langt fram eftir eins og gefur að skilja. Mánudagurinn var hinsvegar tekinn snemma og var vaknað klukkan 06:20 til að halda með mömmu upp að Dettifoss en hún bauð mér einn rúnt með rútunni sem hún keyrir þangað uppeftir. Það má segja að það hafi verið eins gott að ég fór í þessa ferð því annars hefði ég eytt deginum í blautri og kaldri þoku heima í sveit en veðrið í norður sýslunni var satt best að segja alveg frábært. Það var góð tilfinning að standa í úðanum af Dettifossi og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að verða kalt. Tók vel yfir 100 myndir í þessari ferð, misgóðar reyndar og efast ég um að þær muni nokkurn tíma koma á netið, setti samt nokkur sýnishorn í albúmið með myndunum af
laugardagspartýinu. Þeir sem hafa áhuga geta farið í myndaalbúmið mitt að skoða. Hins vegar var ég frekar latur að taka myndir þarna um kvldið og fyrir þá sem eru svakalega myndaþyrstir þá mæli ég með myndaalbúminu hjá henni Guðfinnu, síðan hennar er í tenglalistanum hér til hliðar. Annars vil ég þakka öllum sem ég hitti yfir helgina fyrir skemmtunina og vonandi verður ekki jafn langt þar til ég hitti ykkur næst.

P.s. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók þarna um kvöldið:






... og hér er ein sem ég tók upp við Dettifoss:

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page