05 mars, 2005

Þunnur!!!

Skellti mér á árshátíð sagnfræðinema í gærkvöldi sem að þessu sinni var haldin í sóltúni 3 í Reykjavík. Ég mætti á auglýstum tíma og enginn var mættur á svæðið, auðvitað, síðan hvenær hafa Íslendingar verið stundvísir. Síðan fór liðið að týnast á svæðið og var fordrykks neytt með bestu list. Ætli við höfum ekki verið svona sirka 50-60 í sal sem var svona sirka þrisvar sinnum stærri en í fyrra en þá mættu um 100 manns. Loks eftir langa bið var farið að borða og var alveg hreint frábær matur á boðstólnum, verst að maður gat ekki tekið neitt með sér heim í “doggybag”. Þegar fór að líða á borðhaldið fóru merki ölvunar að sjást á fólki og kom það vel fram í spurningakeppni sem fram fór þarna þegar spyrillinn margtók það fram að hann og dómari væru ölvaðir.

Þegar klukkan fór að ganga 1 tóku menn að ókyrrast vegna þess að rútan sem ætlaði að flytja okkur yfir í Þjóðleikhúskjallarann lét ekki sjá sig. En loks kom druslan og var haldið yfir í kjallarann þar sem menn héldu áfram að skemmta sér. Hitti þar meðal annars Baldur og Jóa, Jón Tómas til þess að nefna nokkra af þeim MA-ingum sem ég hitti þar. Ég hitti líka Kristínu Ingu og henni samferða var einhver stelpa sem var víst líka í MA en útskrifaðist þegar við vorum í öðrum bekk, semsagt ég hafði ekki hugmynd um það hver hún var og satt best að segja þá man ég alls ekki hvað hún hét. Eftir að hafa verið í kjallaranum héldum við þrjú á pöbbarölt og kíktum á nokkra staði en stemmingin var eitthvað léleg því klukkan var um 4. Var spurður um skilríki á einum staðnum og það ekki í fyrsta skipti, hvað er málið eiginlega, maður er spurður um skilríki þegar maður er hálfum metra hærri en dyraverðirnir. Kannski er þetta bara svona minnimáttarkennd hjá þeim og þess vegna verða þeir að bögga stóra manninn. Reykjarsvælan á einum staðnum var svo viðbjóðslega þykk að mig fór að svíða í hálsinn og augun og get ég varla sagt annað en ég hlakki til þegar þessi viðbjóður verður bannaður. Hins vegar held ég að það verði erfitt að framfylgja þessu banni því fólk er nú fífl og sumir þurfa að totta líkkistunaglanna sína.

Allavega, þegar klukkan var orðin hálf 5 var stemmingin alveg að deyja og var þá haldið heim á leið. Fyrr um kvöldið hafði ég séð fram á að þurfa að eyða 2000 krónum í taxa en hún Kristín var svo góð að bjóða mér gistingu. Eyddi ég svo nóttinni, eða því sem eftir var af henni, þar. Dagurinn í dag hefur svo verið gjörsamlega handónýtur og voru þar eftirköst gærkvöldsins að verki. En í heildina litið þá var þetta nú annsi vel heppnað kvöld þrátt fyrir það að dagurinn í dag hafi verið illa nýttur. Annars er ég að hugsa um að fara að halla mér bráðlega, er að deyja úr þreytu hérna.
Segi þetta gott í bili,
yfir og út.

© Ísak Sigurjón sá um gerð og kóðun útlits, 2006






Visitor Map
Create your own visitor map!
Myspace Maps
Locations of visitors to this page